SAGA SKÓLANS

Myndlistarskóli Kópavogs 1988 – 2010-08-21

Upphaf Myndlistarskóla Kópavogs var að stofnendur skólans þær Sigríður Einarsdóttir og Sólveig Helga Jónasdóttir voru báðar fullvissar um nauðsyn þess að starfræktur væri í Kópavogi myndlistarskóli í hinu ört vaxandi bæjarfélagi. Í bænum var þá tónlistarskóli og leikfélag. Sem myndlistarskennarar bjuggu þær yfir langri kennslureynslu og áttu farsælt starf að baki. Þær útskrifuðust frá MHÍ og námu undir leiðsögn Kurt Zier skólastjóra, sem var mikill fræðimaður á sviði myndlistarkennslu. Óhætt er að fullyrða að hann hafi haft sterk áhrif á viðhorf til myndlistarkennslu barna og unglinga, sem skilaði sér til þeirra kennaranema sem hann útskrifaði. Eftir framhaldsnám í MHÍ stofnuðu þær Sigríður og Sólveig Helga Myndlistarskóla Kópavogs haustið 1988.

Þær fóru á fund bæjaryfirvalda og skólanefndar Kópavogs til að rökstyðja tilverurétt skólans.

Bæjaryfirvöld hvöttu þær til dáða og varð hvatning sú til, að því brautargengi sem skólinn byggir á í dag. Síðan hefur bæjarfélagið stutt skólann vel og dyggilega.

Árið 1994 komst skólinn inn á fjárlög ríkisins sem varð mikill ávinningur fyrir hann.

Kennslufræðilegar og listrænar áherslur voru sóttar til Myndlistaskólans í Reykjavík. Naut skólinn þess að vera í góðu sambandi við skólastjóra hans á mótunarárum sínum.

Fyrstu árin, sem skólinn var rekinn var einungis boðið upp á barna- og unlinganámskeið frá 6 – 15 ára. Fljótlega komust færri að en vildu, deildum var þá fjölgað og fullorðinsdeildir litu dagsins ljós.

Skólinn var rekinn af stofnendum þar til hann var gerður að sjálfseignarstofnun árið 1991 og samtímis stofnað skólafélag Myndlistarskóla Kópavogs. Í fyrstu stjórn þess sátu stofnendur ásamt Ingiberg Magnússyni, Þórólfi Kristjáni Beck og Kristjáni Guðmundssyni sem var fyrsti stjórnarformaður félagsins. Heimir Pálsson var formaður 1995 – 1999, Kristín Líndal 1999 – 2002 og Bragi Michaelsson hefur verið formaður stjórnar skólans frá 2002.

Skólinn hefur ávallt mótað sínar leiðir út frá þeim listrænu gildum sem kennarar og stjórnendur hans hafa lagt áherslu á hverju sinni.

Comments are closed.