Rekstrarstefna skólans

Rekstrarstefna skólans hefur líka verið fastmótuð. Skólinn er rekinn með námskeiðsgjöldum og styrkjum. Allt frá stofnun skólans lögðu stjórnendur á það áherslu að fara aldrei fram úr fjárhagsáætlun og standa í skilum við alla þá aðila sem hann hafði viðskipti við og hefur það gengið eftir. Reksturinn hefur ekki alltaf verið auðveldur þrátt fyrir fjárstyrki.

Við stofnun skólans var Einar Hákonarson myndlistarmaður svo rausnarlegur að gefa skólanum málaratrönur sem eru enn í notkun og bærinn gaf stóla og borð, sem skólar bæjarins höfðu ekki lengur not fyrir. Á tuttugasta starfsárinu eru mörg þessara húsgagna enn í notkun, svo ekki hefur verið bruðlað með fé í ytri búnað en megin áhersla lögð á að innihald námskeiða sé faglegt og ríkt af gæðum.

Inntak og listrænar áherslur í kennslu skyldu vera jafn mikilvægar í öllum deildum. Þegar stefna skólans var mótuð var sett á oddinn að til skólans yrðu ráðnir menntaðir myndlistarkennarar, eða starfandi myndlistarmenn og skólinn hefur verið mjög lánsamur með kennara allt frá upphafi.

Árið 1995 tók Ingunn Erna Stefánsdóttir, leirlistamaður og myndlistarkennari við af Sólveigu Helgu sem skólastjóri og stjórnuðu þær skólanum til september 2011. Erla Huld Sigurðardóttir tók þá við stjórninni ásamt Sigríði.

Núverandi stjórn skólafélagsins skipa: Bragi Michaelsson, formaður, Derek Mundell, Birgir Rafn Friðriksson, Erla Huld Sigurðardóttir, Magnús Jóhannsson, Sigríður Einarsdóttir og Sólveig Helga Jónasdóttir.

Skólinn var fyrst til húsa að Auðbrekku 2, síðan að Auðbrekku 32, þá í íþróttahúsinu Digranesi v/Skálaheiði, Fannborg 6 og nú að Smiðjuvegi 74 frá 2008.

Í tengslum við hið núverandi húsnæði hefur verið gerður samstarfssamningur milli skólans og Kópavogsbæjar til að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn og auka þjónustu við bæjarbúa.

Skólinn hefur eflst jafnt og þétt. Húsnæðið að Smiðjuvegi er það stærsta, sem skólinn hefur haft afnot af og gefur það fyrirheit um enn frekari og öflugri starfsemi skólans, má sjá að í takt við fleiri og fjölbreyttari námstilboð fjölgar nemendum ár frá ári.